Allt um turnvarnaleiki í Roblox

Turnvarnaleikir eru einfaldir á yfirborðinu en þessi tegund leikja býður upp á lúmska dýpt sem hefur tryggt þeim vinsældir á meðal spilara í marga áratugi. Það sama er uppi á teningnum í Roblox, en þar er að finna gríðarlegt úrval áhugaverðra og sniðugra turnvarnaleikja sem halda þér við efnið, hvort sem þú spilar í einrúmi eða með vinum. Hér er allt sem þú þarft að vita um turnvarnaleikina í Roblox.

Hvað eru turnvarnaleikir?

Turnvarnaleikir eru herkænskuleikir sem byggja á einföldum grunni. Óvinirnir fylgja ákveðinni leið yfir kortið og stefna á tiltekinn endastað – yfirleitt höfuðstöðvar spilarans.
Verkefnið þitt er að byggja upp varnir – sem yfirleitt eru turnar með byssum – meðfram leiðinni sem óvinurinn velur sér og leggja hann að velli áður en hann kemst að höfuðstöðvum þínum og ræðst á þig. Þetta gæti hljómað einfalt, en turnvarnaleikir bjóða oft upp á gríðarlegt úrval ólíkra óvina og mismunandi turna sem þarf til að sigra þá í orrustu. Ef þú vilt geta stöðvað árásarliðið er algjört lykilatriði að staðsetja turnana rétt.

Herkænskuleikir með árásarbylgjum

Yfirleitt þarftu að berjast við óvini sem ráðast fram í hópum eða árásarbylgjum. Þú vinnur þér inn peninga fyrir hvern sigraðan óvin í árásarbylgjunni og notar peningana til að byggja upp nýjar varnir eða uppfæra núverandi varnir. Turnvarnaleikir kalla því bæði á skipulagsgáfu – herkænska er mikilvæg þegar þú staðsetur varnirnar – og snarpa heilastarfsemi þegar gera þarf breytingar á vörnunum í miðri árás og koma í veg fyrir að óvinirnir sleppi í gegn.

Gerðir turnvarnaleikja

Margir turnvarnaleikir bjóða upp á ólíkar útgáfur og leggja fyrir spilarana fjölbreytt vandamál til að leysa. Í mörgum þeirra færðu að sjá leiðina sem óvinurinn ætlar að fara og þá er markmið þitt að setja upp bestu varnaráætlun sem þú getur með takmörkuðu vopnabúri. Í öðrum leikjum notarðu hindranir til að breyta leið óvinarins og lengja hana, því þannig geturðu sett niður fleiri turna og valdið meiri usla.
Í Roblox eru svo margir spilarar að þú getur fundið ógrynni af turnvarnaleikjum, bæði samvinnuleiki og einstaklingsleiki. Þar sem turnvarnaleikir nota ólíka nálgun eru áskoranirnar oft einstakar – allir turnvarnaleikir hefjast á svipaðan hátt en fara síðan svo ólíkar leiðir að spilarar fá ekki leið á þessari leikjategund.

Svona finnurðu turnvarnaleiki í Roblox

Í Roblox er litið á turnvarnaleiki sem undirflokk herkænskuleikja. Því er auðvelt fyrir þig að finna ógrynni af turnvarnaleikjum. Þú notar bara leitarstikuna í Roblox og slærð inn „turnvarnir“ til að fá lista yfir leiki. Þú getur einnig leitað að „herkænska“ til að finna svipaða leiki, en sú leit mun skila mun fjölbreyttari niðurstöðum og því gætirðu þurft að fletta í gegnum þá.

Vinsælir turnvarnaleikir í Roblox

Defender's Depot er frábær byrjunarreitur ef þú ert að leita að frábærum turnvarnaleikjum. Í honum notarðu hnitakerfi til að setja niður turna og gildrur og lærir þannig inn á grunnreglurnar í þessum leikjaflokki, þótt þessi tiltekni leikur verði líka á endanum ansi snúinn.
Í Tower Defense Simulator notarðu kyrrstæðar herdeildir í stað turna og þarft að verjast á mjög áhugaverðum og fjölbreyttum kortum. Í Anime Last Stand bjóðast margar ólíkar leikjastillingar og tímabundnir viðburðir sem hægt er að spila einn eða með öðrum spilurum. Að lokum má nefna Tower Battles, samvinnuleik þar sem tvö lið keppast um að halda vörnum sínum sem lengst.
Roblox
Roblox Corporation
Innkaup í forriti
4,4
45,2 m. umsagnir
1 ma.+
Niðurhal
Efnisflokkun
Fyrir unglinga